Section
Section
Segment

Vatnsafl: 13.205 GWst

Raforkuvinnsla í vatnsaflsstöðvum Landsvirkjunar árið 2015 var um 13.205 GWst. Landsvirkjun starfrækir fjórtán vatnsaflsstöðvar víðs vegar um landið á fjórum starfssvæðum. Þegar Landsvirkjun var stofnuð 1965 var upphafsverkefni hennar að virkja Þjórsá við Búrfell. Búrfellsstöð var í upphafi 210 MW en um 1996 voru vélar stöðvarinnar stækkaðar þannig að stöðin er nú 280 MW. Nú er hafinn undirbúningur að stækkun stöðvarinnar um 100 MW í einni viðbótaraflvél sem gert er ráð fyrir að taka í notkun á miðju ári 2018. Raforkuvinnsla í vatnsaflsstöðvum Landsvirkjunar árið 2015 var um 13.205 GWst.

Hlutur vatnsafls er um 96% í vinnslu Landsvirkjunar og hlutur jarðvarma er 4%


Ítarlegri upplýsingar um vatnsbúskapinn má finna í kaflanum Vatnsárið.

Segment

Raforkuafhending Landsvirkjunar inn á flutningskerfi Landsnets nam 13.589 GWst árið 2015, sem er 7,1 % meira en árið 2014.

Section
Segment

Jarðvarmi: 497 GWst

Landsvirkjun starfrækir tvær jarðgufustöðvar, í Kröflu og Bjarnarflagi.

Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að nýta jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Hluti þeirrar stefnu er að gæta þess að vatnsforða jarðhitakerfanna sé viðhaldið með góðu jafnvægi á milli nýtingar og innrennslis í kerfið. Sá hluti vökvans sem ekki er nýttur til raforkuvinnslu er skilinn frá og dælt aftur niður í jarðhitageyminn. Frá árinu 2012 hefur niðurdæling við Kröflu aukist í þrepum frá 80 kg/s upp í 125kg/s. Nú eru um 13 kg/s sem ekki er dælt niður en stefnt er að því að dæla öllu skiljuvatni Kröflustöðvar aftur niður í jarðhitageyminn.

Raforkuvinnsla árið 2015 í jarðgufustöðvum Landsvirkjunar árið 2015 var um 497 GWst.

Section
Segment


Vindafl: 6,7 GWst

Landsvirkjun rekur tvær vindmyllur í rannsóknarskyni á svæði sem kallast Hafið og er norðan við Búrfell. Hvor vindmylla um sig hefur uppsett afl 0,9 MW. Rekstur þeirra gekk mjög vel á árinu og lítið hefur verið um truflanir.

Section
Segment

Þrjár grunnstoðir umhverfisvænnar orku

Section
Segment

Rekstur aflstöðva

Rekstur stöðva gekk vel á árinu. Fyrirvaralausar truflanir í aflstöðvum fyrirtækisins voru 106 á árinu 2015, samanborið við 87 á árinu 2014. Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að allar vélar í aflstöðvum fyrirtækisins skuli vera tiltækar 99% af árinu að meðtöldum skipulögðum viðhaldstímabilum. Þetta markmið náðist á árinu. Vélar voru tiltækar 99,9% tímans á árinu, en voru tiltækar 99,7% tímans árið 2014.

Eftirlit, viðhald og gæsla aflstöðva var í föstum skorðum á árinu. Landsvirkjun starfrækir samþætt vottað gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi sem byggist á ISO 9001, ISO 14001, OHSAS 18001 og innra rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi (RÖSK) sem uppfyllir kröfur Mannvirkjastofnunar um rafmagnsöryggisstjórnun.

Þýska vottunarstofan TÜV SÜD hefur vottað raforkuvinnslu Landsvirkjunar sem græna raforkuvinnslu og auk þess er öryggisstjórnkerfi upplýsingasviðs Landsvirkjunar vottað samkvæmt ISO 27001.

Section
Segment

Fjárfestingar í orkumannvirkjum í rekstri

Unnið var að 87 fjárfestinga- og endurbótaverkefnum í aflstöðvum á árinu 2015. Unnið var að bergstyrkingu undir yfirfallsrennu Kárahnjúkastíflu yfir sumarmánuðina. Verkið gekk mjög vel við erfiðar aðstæður. Lokið var við smíði á nýju hverfilhjóli fyrir vél 4 í Búrfellsstöð og var því veitt viðtaka á síðari hluta ársins. Á árinu hélt áfram undirbúningsvinna við endurnýjun á hverfli í Laxárstöð þrjú, ásamt endurbótum á inntaksmannvirkjum.

Section
Segment

Bergstyrking undir yfirfallsrennu við Hálslón

Í sumar var unnið viðhaldsverkefni við Hálslón þar sem gljúfurveggur undir neðri enda yfirfallsrennu var rofvarinn.

Verkið var unnið á sex vikna tímabili, frá byrjun júní til miðs júlí. Hluta verktímans var unnið allan sólarhringinn. Reistur var krani á efri palli yfirfallsins og verkið unnið ofan frá, þar sem hluti bergveggsins var styrktur með bergboltum, stálneti og sprautusteypu.

Frá upphafi var vitað að nauðsynlegt myndi reynast að rofverja og styrkja gljúfurvegginn undir yfirfallinu eftir ákveðinn árafjölda. Ástæða þess er að ólíkar bergtegundir eru undir yfirfallinu og er því rofþol bergsins mismikið. Rof undir yfirfallinu hefur verið mælt allt frá því að mannvirkið var tekið í notkun, til að meta hvort berghrun ógni undirstöðu yfirfallsins. Niðurstöður mælinga sýndu að bergveggurinn hopaði og að ef ekkert væri að gert myndi sú þróun halda áfram. Því var talið nauðsynlegt að fara í aðgerðir til að tryggja öryggi yfirfallsrennunnar.

Um mjög sérhæft verk var að ræða og því var ákveðið að semja við svissneska fyrirtækið Gasser um aðkomu að verkinu en þeir hafa mikla þekkingu í hrunvörnum og bergstyrkingum. Innlendir verktakar komu að öðrum verkþáttum.

Yfirfall er hluti af stíflumannvirki Hálslóns og þjónar yfirfallið þeim tilgangi að hleypa vatni af lóninu þegar það fyllist. Yfirfallsrennan liggur frá yfirfallinu að gljúfurbarmi Hafrahvammagljúfurs neðan stíflunnar. Þegar vatn rennur á yfirfalli myndast fossinn Hverfandi þar sem vatnið steypist 90–100 metra niður í Hafrahvammagljúfur. Fossinn er aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss.

Segment
Section
Segment

Viðbragðsáætlanir vegna náttúruvár

Raforkukerfi landsins er lífæð þjóðfélagsins. Þess vegna er mikilvægt að viðbrögð við hvers konar áföllum sem gætu orðið séu vel skilgreind. Markmiðið er að tryggja öruggan rekstur raforkukerfisins, sem er grundvöllur fyrir starfandi samfélagi og varðar þjóðarhag.

Æfing Neyðarstjórnar Landsvirkjunar (NLV) var haldin 12. nóvember 2015. Æfingin var sjálfstætt framhald af æfingu 1311 sem haldin var árið 2013 og fjallaði um viðbrögð við eldgosi í Vatnajökli og stórfelldu flóði á Þjórsársvæði sem leiddi til skemmda á mannvirkjum og skömmtun á raforku til stórnotenda og almennings. Starfsmenn Þjórsársvæðis æfðu sérstaklega viðbragðsáætlun vegna flóða.

Æfingin var hluti af stórri neyðarstjórnaræfingu, „æfingu 1511“, sem skipulögð var af Landsneti með þátttöku aðila að NSR og fleiri.

Fyrir hönd Landsvirkjunar tóku þátt, auk neyðarstjórnar, forstjóri og aðstoðarforstjóri, lögfræðingur LV, yfirmaður samskiptasviðs, starfsmenn á Þjórsársvæði, starfsmenn Fljótsdalssvæðis, starfsmenn markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs og fleiri.

Viðbragðsáætlanir Landsvirkjunar vegna náttúruvár beinast einkum að jarðskjálftum, öskufalli og misstórum flóðum. Í ljósi atburðanna við Holuhraun og í Bárðarbungu voru viðbragðsáætlanir uppfærðar og undirbúnar aðgerðir fyrir mögulegar sviðsmyndir sem gætu orðið vegna umbrotanna. Þá var flóðvar við Hágöngur endurbætt til að varna því að aðalstíflan brysti í stórflóði. Eldgosinu í Holuhrauni lauk formlega þann 28. febrúar, en ýmislegt bendir til þess að stutt geti verið í næsta gos.


Tilgangur flóðvara er að lágmarka skemmdir á stíflumannvirkjum í stærri flóðum og draga úr afleiðingum þess ef rof kæmi á stíflu.