Section
Segment

Landsvirkjun er nú í fyrsta skipti með tvær virkjunarframkvæmdir í gangi í einu; stækkun Búrfellsvirkjunar og Þeistareykjavirkjun. Tilgangur þessara nýju virkjana er að koma til móts við aukna eftirspurn eftir endurnýjanlegri íslenskri orku.

Section
Segment

Stækkun Búrfellsvirkjunar

Hámarkar nýtingu á rennsli Þjórsár við Búrfell

Um 14% af rennslisorku við Búrfellsstöð renna að jafnaði ónýtt fram hjá stöðinni á hverju ári. Stækkuð Búrfellsvirkjun mun bæta nýtingu á því rennsli. Er það í samræmi við hlutverk fyrirtækisins að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Segment
Segment

Nýr frárennslisskurður, hægra megin á myndinni, liggur frá Sámsstaðaklifi og út í Fossá fyrir neðan Búrfellsstöð.

Segment

Stækkun ekki háð mati á umhverfisáhrifum

Landsvirkjun tilkynnti Skipulagsstofnun um fyrirhugaðar framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar árið 2013. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var að stækkun virkjunarinnar um allt að 140 MW væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sem um stækkun virkjunar er að ræða, sem ekki skal háð mati á umhverfisáhrifum, fellur framkvæmdin ekki undir verndar- og orkunýtingaráætlun – rammaáætlun.

Segment

Stöðvarhús neðanjarðar

Lögð er áhersla á að mannvirki verði sem minnst áberandi. Mest áberandi mannvirkin verða aðrennslisskurður, frárennslisskurður og inntaksmannvirki virkjunarinnar. Stöðvarhúsið verður neðanjarðar í Sámsstaðaklifi.

Segment
Segment
Á þessari þrívíddarmynd sést inn í fjallið, þar sem stöðvarhúsið verður neðanjarðar.


Section
Segment

Aukin orkugeta og meiri sveigjanleiki 

Uppsett afl nýrrar stöðvar verður 100 MW með einni vél, en gert er ráð fyrir að síðar verði hægt að stækka stöðina um allt að 40 MW. Með stækkun Búrfellsvirkjunar má auka orkugetu raforkukerfisins um allt að 300 GWst á ári. Búist er við að eftirspurn eftir raforku aukist á næstu árum. Bæði er reiknað með því að viðskiptavinum fjölgi og að núverandi viðskiptavinir óski eftir því að auka við orkukaup sín. Stækkun Búrfellsvirkjunar býður upp á aukinn sveigjanleika í rekstri og gefur möguleika á viðhaldi mannvirkja núverandi stöðvar án þess að orkuvinnsla skerðist að marki.

Segment

Um 150 manns á vinnustað á framkvæmdatíma

Samið var við Verkís hf. um hönnun virkjunarinnar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á fyrirhuguðu virkjunarsvæði hefjist vorið 2016 og að þær standi yfir til miðs árs 2018. Á síðari hluta ársins 2016 má gera ráð fyrir um 100 starfsmönnum á virkjunarsvæðinu. Allt árið 2017 og fyrri hluta árs 2018 er gert ráð fyrir allt að 170 starfsmönnum á svæðinu. Áætlaður heildarkostnaður er 14–16 milljarðar íslenskra króna. Ráðgert er að gangsetja stækkunina vorið 2018.

Section
Segment

Þeistareykjavirkjun

Jarðhitasvæðið við Þeistareyki býður upp á mikla möguleika til jarðvarmavinnslu, en áætluð orkuvinnslugeta svæðisins er um 200 MW.

Segment

Gert er ráð fyrir að 90 MW virkjun í tveimur áföngum verði fyrsta skrefið í uppbyggingu jarðvarmavinnslu á svæðinu. Samkvæmt verkáætlun verður fyrsta áfanga lokið haustið 2017. Við byggingu og rekstur virkjunarinnar verður sérstök áhersla lögð á umhverfismál.

Segment

Margra ára rannsóknir

Fyrstu rannsóknarboranir hófust á Þeistareykjum árið 1999. Síðan þá hefur verið unnið að umfangsmiklum rannsóknum á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði auk undirbúningsframkvæmda á svæðinu. Má þar meðal annars nefna lagningu aðkomuvegar frá Húsavík, jarðvegsframkvæmdir við stöðvarhússgrunn, lagningu vatnsveitu og uppbyggingu innviða. Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir byggingu stöðvarhúss sem samanstendur af þjónustubyggingu og verkstæði ásamt tveimur vélasölum. Byggð verður skiljustöð, niðurrennslismannvirki og dælustöð fyrir kaldavatnsveitu ásamt því að leggja gufupípur að borsvæðum.

Segment

Framkvæmdir hafnar

Í febrúar 2015 var skrifað undir samning um kaup á einni 45 MW vélasamstæðu og tilheyrandi búnaði. Sá samningur markaði upphaf framkvæmda við fyrsta áfanga virkjunarinnar. Í kjölfarið fylgdu samningar um byggingu stöðvarhúss og lagningu gufuveitu. Í ágústmánuði var ákveðið að ráðast í annan áfanga verkefnisins en hann snýr að kaupum og uppsetningu á annarri 45 MW vél. Samhliða þeirri ákvörðun var ljóst að ráðast þyrfti í frekari gufuöflun og auka við umfang verksamninga.

Section
Segment

Þeistareykir – vandlegur undirbúningur og rannsóknir

Segment

Framkvæmdir 2015

Framkvæmdir ársins hófust um miðjan maí þegar LNS Saga, verktaki Landsvirkjunar í gufuveitu og stöðvarhúsi, hóf uppsetningu á aðstöðu á Þeistareykjum. Yfir 100 manns störfuðu á vegum verktakans á Þeistareykjum þegar flestir voru á svæðinu um sumarið.

Segment

Bygging stöðvarhúss

Brýnasta verkefni ársins var bygging stöðvarhúss. Mikilvægt var að nýta sumarið vel þar sem um einn stærsta hluta verkefnisins var að ræða. Megináhersla var því lögð á að steypa upp húsið og reisa burðarvirki vélasala og hófst steypuvinna á Þeistareykjum í byrjun júní. Framkvæmdir hafa gengið vel og í árslok var vinnu við uppsteypu meginhluta stöðvarhússins lokið.

Segment

Lykilatriði:

  • 90 MW jarðvarmavirkjun í tveimur áföngum
  • Framkvæmdir hófust í febrúar 2015
  • Mikil áhersla er lögð á umhverfismál
  • Aflvél 1 fer í rekstur haustið 2017
  • Stefnt á að aflvél 2 komist í rekstur vorið 2018
Segment

Gufuaðveita

Framkvæmdir við gufuveitu hófust einnig um sumarið en fóru nokkuð hægar af stað en áætlað var. Þegar leið á sumarið var hins vegar aukin áhersla lögð á þennan hluta verkisins. Bætt var við tækjakost og starfsmönnum fjölgað. Um miðjan nóvember var verkið komið á áætlun og markmiðum ársins náð.

Section
Segment
Segment

Vegagerð

Framkvæmdir við Þeistareykjaveg héldu áfram sumarið 2015. Á um það bil 18 kílómetra vegkafla, frá Höskuldsvatni að Tjarnarási við Þeistareykjavirkjun, var lagt efra burðarlag og klæðning. Í september lauk framkvæmdum við veginn með tvöfaldri klæðningu og vegmálun og uppsetningu vegstika. Þeistareykjavegur er nú fullfrágenginn frá Húsavík að Þeistareykjum.

Section
Segment

Hönnun og smíði framleiðslubúnaðar

Á vormánuðum hófst hönnun vélbúnaðar og í framhaldinu framleiðsla á meginhlutum aflvéla. Þá var og samið um kaup á gufuskiljum og stjórnbúnaði. Í árslok hafði verið gengið frá samningum um kaup á aflspennum og rafbúnaði og þar með öllum helstu einingum virkjunarinnar.

Segment

Gufuöflun

Árið 2015 vann Landsvirkjun að mörgum verkefnum í tengslum við gufuöflun á Þeistareykjum. Umfangsmesta verkefnið var álagsprófun á jarðhitasvæðinu sem lauk snemmsumars. Álagsprófun leiddi í ljós að gufumagn í núverandi vinnsluholum nægir fyrir fyrsta áfanga virkjunarinnar og vel það, en holurnar reyndust gefa ívið meira en áður hafði verið mælt.

Segment

Áhersla á öryggismál – allir heilir heim

Landsvirkjun rekur svokallaða „núllslysastefnu“ á Þeistareykjum, þar sem stefnt er að slysalausum vinnustað með virku öryggisstarfi, eftirliti og fræðslu. Allir starfsmenn sem hefja vinnu á Þeistareykjum sitja nýliðanámskeið í öryggis- og umhverfismálum og sóttu samtals 283 starfsmenn, 117 erlendir og 166 íslenskir, slíkt námskeið árið 2015. Árið 2015 voru vinnustundir á Þeistareykjum yfir 150.000 án fjarveruslysa.

Segment

Umfangsmikið starf í umhverfismálum

Við allan undirbúning og framkvæmdir við Þeistareykjavirkjun hefur verið tekið mið af sérstöðu svæðisins og áhersla lögð á umhverfismál. Þeistareykir voru fyrir framkvæmdir nær ósnortið svæði, ef frá eru taldar búsetuminjar og ummerki um brennisteinsnám á öldum áður.

Með reglubundinni vöktun umhverfisþátta, sem er nú þegar hafin á Þeistareykjum og nágrenni, mun Landsvirkjun fylgjast með áhrifum jarðhitanýtingar á umhverfið. Markmiðið er að þekkja grunnástand umhverfisþátta svæðisins áður en rekstur virkjunar hefst og vakta sömu umhverfisþætti á rekstrartíma hennar.

Til að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmda eru þær skipulagðar þannig að landmótun og frágangur fer fram samhliða uppbyggingu. Má þar nefna sáningu í vegfláa Þeistareykjavegar og nýtingu gróðurþekju af framkvæmdasvæðum til klæðningar jarðvegsmana og vegfláa. Jafnframt er hafin uppgræðsla lands til mótvægis við það land sem fer undir mannvirki.

Segment

Sjálfbærniverkefnið

Á árinu 2015 var sjálfbærniverkefnið á Norðurlandi endurvakið í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Einnig eiga nú aðild að því Landsnet, PCC og hagsmunasamtök í ferðaþjónustu. 

Þekkingarnet Þingeyinga var ráðið til að halda utan um verkefnið. Fyrsta skrefið er að móta sjálfbærnimælikvarða til að fylgjast með breytingum á samfélagi, efnahag og umhverfi í tengslum við virkjanaframkvæmdir á Þeistareykjum, iðnaðarframkvæmdir á Bakka og aukin umsvif í ferðaþjónustu á svæðinu.

Section
Segment
Segment

Samtal við samfélagið

Árið 2015 hófst með opnum samráðsfundi Landsvirkjunar og ferðaþjónustuaðila í Ýdölum þann 13. janúar. Það samtal hélt síðan áfram á árinu m.a. með fundi á Þeistareykjum í júní. Í júní voru einnig haldnir opnir kynningarfundir á Húsavík og í Þingeyjarsveit auk þess sem ýmsir aðrir samráðsfundir fóru fram á árinu.