Landsvirkjun selur um 85% raforku sinnar beint til viðskiptavina í orkufrekum iðnaði en 15% orkunnar eru seld á heildsölumarkaði.
Heildsölumarkaður raforku er vettvangur viðskipta með raforku á milli raforkusala. Landsvirkjun selur raforku á heildsölumarkaði til sölufyrirtækja sem selja svo raforku áfram til endanotenda, bæði fyrirtækja og heimila.
Sölufyrirtæki selja raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu til annarra orkusala eða í smásölu til endanotenda. Sex sölufyrirtæki kaupa raforku af Landsvirkjun. Sölufyrirtækin kaupa hluta orku sinnar af Landsvirkjun en vinna einnig hluta í eigin virkjunum. Samkeppnismarkaður hefur verið um vinnslu og sölu á raforku frá árinu 2005.
Nýtt samningsform
Landsvirkjun tók upp nýtt samningsform á hluta af heildsölusamningum á árinu 2015 og hefur reynslan verið ágæt. Gerðir voru sérstakir samningar um rjúfanlega orku vegna heildsölu til iðnaðarnotenda á smásölumarkaði. Mikil eftirspurn var á heildsölumarkaði vegna eftirspurnaraukningar almennra notenda, þ.e.a.s. heimila og fyrirtækja sem eru ekki stórnotendur.
Landsvirkjun bauð í flutningstöp Landsnets eins og áður, en hlutdeild Landsvirkjunar hefur minnkað síðan á árinu 2014. Landsvirkjun samdi einnig við Landsnet á árinu um áframhaldandi boð á reglunaraflsmarkað.