Eftirspurn eftir orku frá Íslandi hefur farið sívaxandi og kemur frá fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Mikið markaðsstarf Landsvirkjunar á undanförnum árum hefur borið góðan árangur.
Nú er svo komið að eftirspurn eftir íslenskri endurnýjanlegri orku er meiri en framboð, sem þýðir að sá sem hefur nýja raforku til sölu á Íslandi er í lykilstöðu. Markaðurinn hefur á undanförnum árum breyst úr kaupendamarkaði í seljendamarkað.
Hvernig hámörkum við verðmæti íslenskrar orku?
Stór hluti af markaðsstarfi Landsvirkjunar felur í sér að greina markaði og leita uppi eftirsóknarverða viðskiptavini. Sem dæmi um góðan árangur þess má nefna aukinn áhuga gagnavera, sem eru sívaxandi iðnaður í heiminum samfara aukinni netnotkun og kröfu um gagnaöryggi. Einnig má nefna kísilmálmiðnað, sem fer ört stækkandi á heimsvísu, en Landsvirkjun hefur unnið ötult markaðsstarf gagnvart stærstu fyrirtækjum heimsins í þeim geira.
Í ljósi aukinna áherslna ríkja heims á loftslagsmál hefur sú þróun einnig orðið, að það er orðið eftirsótt í sjálfu sér að orka sé endurnýjanleg. Öll orka sem Landsvirkjun vinnur er endurnýjanleg og fyrirtækið finnur fyrir auknum áhuga erlendis vegna þessarar sérstöðu þeirrar vöru sem það hefur upp á að bjóða.
Þessi aukna eftirspurn er einnig til marks um það samkeppnisforskot og sérstöðu sem Landsvirkjun hefur á heimsvísu, með því að bjóða langtímasamninga með fyrirsjáanlegu orkuverði og öruggri afhendingu, því um leið og fleiri banka á dyrnar hjá fyrirtækinu ríkja erfiðar aðstæður á orkumörkuðum í heiminum, með lækkandi verði og óvissu á mörkuðum.
Með öflugu markaðsstarfi vinnur Landsvirkjun að því hlutverki sínu að hámarka afrakstur þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir, en eins og kemur fram í ávarpi Harðar Arnarsonar forstjóra mun með sama áframhaldi verða hægt að greiða aukinn arð úr fyrirtækinu til eigenda þess, íslensku þjóðarinnar, innan nokkurra ára.