Section
Segment

Samspil náttúru og orkuvinnslu

Við fyrstu athuganir á virkjunarhugmyndum skipta góðar upplýsingar miklu máli til að móta tilhögun einstakra virkjana og lágmarka umhverfisáhrif eins og kostur er.

Margra ára rannsóknarvinna liggur að baki hverjum virkjunarkosti og á þeim grundvelli er verkefnið skilgreint með hagkvæmni, sjálfbærni og lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa að leiðarljósi. Landsvirkjun hafði um tuttugu virkjunarkosti til skoðunar og greiningar árið 2015. Fjöldi virkjunarkosta gefur samhliða möguleika á aukinni orkunýtingu og aukinni verndun.

Segment

Hér á landi er vönduð umgjörð um frekari nýtingu og verndun landsvæða, sem byggir á þremur meginþáttum: rammaáætlun, mati á umhverfisáhrifum og skipulagslöggjöf. Allt eru þetta tæki til að meta hvort áhrif á umhverfi séu of mikil til að ávinningur virkjunar sé ásættanlegur. Virkjanaframkvæmdir hafa áhrif á náttúru, hálendi og byggð. Fjölmörg tækifæri eru til aukinnar nýtingar og orkuvinnslu á Íslandi, ólíkt því sem þekkist víðast hvar í Evrópu, þar sem búið er að nýta flesta orkukosti.

Segment

„Við getum verndað öll okkar helstu náttúrusvæði og á sama tíma aukið orkuvinnslu umtalsvert. Endurnýjanleg orkuvinnsla og náttúruvernd þurfa ekki að vera andstæður.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar,
á ársfundi 2015

Section
Segment

Að þekkja umhverfi sitt

Section
Segment

Endurskoðun á umhverfismati Hvammsvirkjunar

Hvammsvirkjun var á árinu færð úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar með þingsályktun Alþingis, en unnið hefur verið að undirbúningi og rannsóknum á fyrirhugaðri Hvammsvirkjun um árabil. Fyrirtækið hefur lagt mikla áherslu á mótvægisaðgerðir til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif virkjunar, ekki síst á fiskistofna á svæðinu.

Nánar um rannsóknir á fiskistofnum í Þjórsá.

Fyrirhuguð Hvammsvirkjun mun nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar, frá svokölluðu Yrjaskeri rétt ofan við bæinn Haga og niður fyrir Ölmóðinsey austan við Þjórsárholt.

Mat á umhverfisáhrifum var framkvæmt árið 2003 og hefur matsskýrslan síðan þá verið í gildi. Þar sem framkvæmdir hafa hins vegar ekki hafist innan áratugar frá gerð skýrslunnar þurfti Skipulagsstofnun lögum samkvæmt  að ákveða hvort endurtaka þyrfti matið í heild eða að hluta. Niðurstaða stofnunarinnar var að endurskoða bæri áhrif virkjunar á landslag og ásýnd lands annars vegar og ferðaþjónustu og útivist hins vegar.

Nú er hafin vinna við þá endurskoðun. Aðrir hlutar umhverfismatsins eru áfram í gildi. Fyrsta skrefið í endurskoðunarferlinu er að útbúa matsáætlun, sem gerir grein fyrir hvernig staðið verður að mati á áhrifum virkjunar á framangreinda þætti. Drög að tillögu að matsáætlun hafa verið kynnt og bárust nokkrar athugasemdir og er gert ráð fyrir að endanleg tillaga að matsáætlun liggi fyrir í aprílbyrjun 2016.