Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar og gegnir þar af leiðandi mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Við leggjum áherslu á að miðla upplýsingum til almennings og skapa umræður og vettvang fyrir sjónarmið og hagsmuni þeirra sem starfsemin hefur áhrif á. Við viljum auðvelda fólki að kynna sér starfsemi okkar, áherslur í markaðsstarfi og þá rannsóknarvinnu sem unnin er á sviði auðlinda og umhverfis.
Samtal við þjóðina
Við viljum eiga samtal við þjóðina á fjölbreyttum vettvangi, með það markmið að ná til sem flestra hverju sinni.
Það gerðum við með sérstöku átaki í því að halda opna fundi á afmælisárinu, eins og lesa má um í kaflanum um 50 ára afmælið. Gestir á opnum fundum fyrirtækisins voru hátt í 2.000 talsins og nærri því annað eins fylgdist með á YouTube rás þess.
Á YouTube rás Landsvirkjunar má nálgast upplýsingamyndbönd um starfsemi fyrirtækisins og upptökur af fundum.
Í ár var lögð ríkari áhersla á að auka magn upplýsinga og efnis á samfélagsmiðlum. Landsvirkjun er með reikning á Twitter og síðu á Facebook. Þar setjum við fram fréttir af öllu því sem er áhugavert fyrir almenning, en á síðasta ársfundi óskuðum við eftir spurningum og athugasemdum á samfélagsmiðlum sem gafst vel og skapaði óformlegan og aðgengilegan vettvang fyrir umræður og endurgjöf.
Þá birtum við reglulega fréttir af viðburðum og öllu fréttnæmu í starfi félagsins á landsvirkjun.is, auk þess sem við tókum á móti yfir 30.000 gestum í gestastofum okkar, sem eru í Búrfellssstöð og Kröflustöð, en einnig er boðið upp á leiðsögn við Kárahnjúkastíflu.
Blað brotið með rafrænu umhverfismati
Landsvirkjun braut blað á árinu með nýrri framsetningu á frummatsskýrslu umhverfismats, þegar sett var fram rafræn umhverfismatsskýrsla fyrir Búrfellslund. Um var að ræða fyrstu rafrænu umhverfismatsskýrslu á Íslandi og eftir því sem við best vitum í heiminum.
Tilgangurinn með þessari nýju framsetningu var að ná athygli fólks snemma í undirbúningsferli framkvæmdarinnar, þegar tækifæri gefst til að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum til að nýta við útfærslu og hönnun. Markmiðið er að auka samráð við alla hagsmunaaðila við undirbúning virkjanaframkvæmda fyrirtækisins á því stigi að enn er hægt að hafa áhrif á framgang þeirra. Rafræn framsetning sýnir sjónræn áhrif virkjana mjög vel – mun betur en skriflegar skýrslur.
Vefurinn fór í loftið í október 2015 og voru viðbrögðin við þessari nýju nálgun á kynningu umhverfismats afar góð. Vefurinn var auk þess tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna í flokknum Opinberir vefir.
Auk þess að gefa út skýrsluna héldum við þrjá opna fundi til að kynna matið, í Árnesi, á Hellu og í Reykjavík og settum upp rafrænar upplýsingastöðvar í Árnesi og á Hellu.
Vefsíða umhverfismats Búrfellslundar
Í rafrænu umhverfismati Búrfellslundar er hægt að sjá ásýnd fyrirhugaðs vindlundar frá ýmsum sjónarhornum í nágrenninu.