David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, kom í opinbera heimsókn til Íslands í október 2015 og settu hann og forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, á laggirnar starfshóp sem mun skoða mögulega lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands.

Samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Landsnets og National Grid í Bretlandi um mögulegan sæstreng hélt áfram á árinu.
Lagning sæstrengs til Bretlands myndi opna á tækifæri til að nýta betur þau miklu verðmæti sem felast í stýranlegri orkuvinnslu sem erfitt er að nýta í einangruðu raforkukerfi eins og því íslenska. Orkuverð í Bretlandi sveiflast nær í rauntíma og er því til dæmis hærra á daginn en á næturnar, sem og á ákveðnum álagspunktum.

Landsvirkjun vinnur í samstarfi við innlenda og erlenda fagaðila að því að meta tæknilegan fýsileika og hagkvæmni sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Verkefnið er á byrjunarstigum, þar sem allir þættir verksins eru kannaðir á ítarlegan og faglegan hátt.
Bætt nýting auðlindarinnar
Sæstrengur gefur möguleika á að auka framleiðslu og selja orku þegar þörf er mikil og verð hærra. Að sama skapi er mögulegt að draga úr framleiðslu og kaupa orku frá Bretlandi þegar verð sveiflast niður. Sæstrengur myndi þannig bæta nýtingu auðlinda landsins, treysta orkuöryggi og draga úr rekstraráhættu orkuvinnsluaðila.
Gerður hefur verið fjöldi rannsókna um lagningu sæstrengs og ávinning þess en rannsóknarskýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2013 benti þannig á að sæstrengur myndi gera beinan útflutning á raforku mögulegan og skapa um leið fjárhagslegan ávinning fyrir íslenskt samfélag.
Vísbendingar eru um að raforkusala um sæstreng kunni að vera samkeppnishæf við erlenda raforkuvinnslu. Er það bæði komið til vegna breytts landslag á orkumörkuðum en einnig vegna tæknilegra framfara í lagningu sæstrengja. Slíkir strengir verða sífellt lengri og öflugri og eru í auknum mæli lagðir um dýpri og erfiðari hafsvæði.