Section
Segment

Ábyrgð Landsvirkjunar í íslensku samfélagi er mikil. Fyrirtækið er í eigu þjóðarinnar og því er treyst fyrir dýrmætum auðlindum landsins.

Auðlindirnar eru einstakar á heimsvísu. Þjóðir heims keppast nú við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í þeirri viðleitni að sporna við hlýnun jarðar. Helsta vopnið í þeirri baráttu er að færa orkuvinnslu úr jarðefnaeldsneyti - kolum, gasi og olíu - yfir í endurnýjanlegar auðlindir eins og þær sem við búum yfir - vatnsafl, jarðvarma og vind - og hafa margfalt miklu minni losun í för með sér.

Íslendingar eru í öfundsverðri stöðu. Við getum - og höfum - lagt meira af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar en flestar aðrar þjóðir, miðað við höfðatölu. Í þeim efnum gegnir Landsvirkjun lykilhlutverki.

Samfélagsleg ábyrgð Landsvirkjunar er að skapa arð, fara vel með auðlindir og umhverfi og stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins.

Það hafa verið forréttindi að gegna stjórnarformennsku í Landsvirkjun og skynja hversu starfsfólk félagsins tekur ábyrgð sína alvarlega.

Eins og kemur fram í síðasta fjárhagsuppgjöri hafa hreinar skuldir fyrirtækisins lækkað um ríflega 107 milljarða króna frá árinu 2009 og eiginfjárhlutfallið er nú hærra en verið hefur frá upphafsárum fyrirtækisins, eða tæplega 45%. Handbært fé frá rekstri hefur staðið undir fjárfestingum síðastliðinna ára og er það forsenda bættrar skuldastöðu. Áfram verður lögð höfuðáhersla á að greiða niður skuldir. Hreinar skuldir eru nú 6,2 sinnum EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir). Markmiðið er að ná hlutfallinu niður fyrir 5. Við það eykst svigrúm til endurfjármögnunar skulda á hagstæðum kjörum og til þess að greiða eigandanum, íslensku þjóðinni, arð.

Landsvirkjun leggur metnað sinn í að ganga vel um náttúruna. Fylgst er vel með áhrifum framkvæmda á umhverfið og allt kapp lagt á að lágmarka neikvæð áhrif og hámarka þau jákvæðu.

Gríðarleg þekking hefur orðið til innan Landsvirkjunar í hálfrar aldar sögu fyrirtækisins, en ekki síður utan þess. Fyrirtækið hefur stutt við fræðastarfsemi og í kringum virkjanaframkvæmdir hefur myndast mikil þekking hjá ótal verktökum og samstarfsmönnum sem nýst hefur til verðmætasköpunar í samfélaginu.

Við getum verið stolt af þessum árangri, en um leið er mikilvægt að láta ekki staðar numið. Landsvirkjun mun áfram taka ábyrgð sína alvarlega.

Section
Segment

Ávarp forstjóra

Section
Segment

Auðlind fylgir ábyrgð

Í ávarpi sínu segir Hörður Arnarson forstjóri frá þeim árangri sem náðst hefur í rekstri Landsvirkjunar, en frá árinu 2009 hafa hreinar skuldir lækkað um 107 milljarða íslenskra króna. Þá fjallar hann um þá ábyrgð sem Landsvirkjun ber og tekur alvarlega: að hámarka afrakstur af þeim auðlindum sem henni er trúað fyrir, að ganga á ábyrgan hátt um náttúruna og að leggja sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar með nýtingu endurnýjanlegrar orku.